Umræðan er vefsvæði Landsbankans þar sem birtar eru áhugaverðar greinar um efnahagsmál, fjármál, starfsemi bankans og samfélagstengd málefni. Umræðan er fyrir alla og rætt er á aðgengilegan hátt um það sem efst er á baugi í fjármálaheiminum og málefni sem tengjast breytingum í samfélaginu með einum eða öðrum hætti.
Umræðan opnaði árið 2016 og hefur vaxið að umfangi með hverju ári. Við framsetningu efnis er notast við texta, ljósmyndir, myndbönd og tölulegt efni. Áhersla hefur verið lögð á gerð myndbanda, jafnt viðtöl við sérfræðinga og álitsgjafa, og fræðandi yfirlits- og kynningarmyndbönd. Á árinu 2018 bættist hlaðvarp við útgáfuflóruna sem unnið var í samvinnu við Stúdentaráð HÍ.
Málefnin sem fjallað eru um á Umræðunni eru afar fjölbreytt. Á árinu 2018 hélt bankinn áfram úti víðtækri umfjöllun um netöryggismál þar sem sérfræðingar bankans fjalla um ýmsar hliðar þess málaflokks, t.d. framtíð auðkenningar, öryggi í netverslun, vefveiðar og hvernig varast megi falsfréttir um skjótfenginn gróða. Á undanförnum árum hefur tilraunum til fjársvika á netinu fjölgað. Landsbankanum er mikið í mun að vara viðskiptavini sína og aðra við hættum sem af þeim stafa og lítur á það sem hluta af sinni samfélagsábyrgð.
Á árinu 2018 var m.a. farið yfir góð ráð í tengslum við atvinnuumsóknir og atvinnuviðtöl. Einnig voru veitt góð ráð um kortanotkun erlendis og þeirri spurningu velt upp hvað séu sanngjörn laun fyrir barnapössun.
Fjallað var um þróun mála í banka- og fjármálageiranum og birtar greinar um persónuvernd, nýja tilskipun um greiðsluþjónustu og græn skuldabréf, svo eitthvað sé nefnt. Rafeyririnn bitcoin og bálkakeðjur, tæknin sem hann byggir á, voru til umfjöllunar. Farið var yfir kostnaðinn við skammtímalán, vaxtalaus lán og tilraun verð til að meta hvort væri hagstæðara að taka verðtryggð eða óverðtryggð lán. Einnig voru veitt ráð varðandi það hvernig best mætti stuðla að góðu lánshæfismati. Sérstök grein birtist um starfsemi Landsbankans á Selfossi í tilefni aldarafmælis útibús bankans þar og einnig var fjallað um atriði sem þarf að hafa í huga við skiptingu dánarbúa.
Sum umfjöllunarefnin á Umræðunni eru samfélagstengd og tengjast samstarfaðilum bankans. Þar á meðal má nefna yfirlit yfir 90 ára sögu slysavarnafélagsins Landsbjargar, árshátíð tónlistarmanna í tengslum við Airwaves og í tilefni af gleðigöngu Hinsegin daga birtist grein um stöðu hinsegin fólks á Íslandi. Einnig birtist grein um kassabílarall á humarhátíðinni á Höfn í Hornafirði. Tvær greinar birtust um för íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á heimsmeistaramótið í Rússlandi, önnur um fólkið bak við tjöldin í landsliðshópnum og hin um Heimi Hallgrímsson, þáverandi landsliðsþjálfara. Einnig var áhugaverð umfjöllun um kvennaknattspyrnu í undanfara leiks landsliðsins við Þýskaland í undankeppni HM 2019.
Umræðan birti ítarlega umfjöllun um fjölgun eldra fólks í landinu og áhrif þess á samfélagið og einstaklinga. Hagspá Hagfræðideildar bankans og greiningar deildarinnar á ákveðnum geirum hagkerfisins birtast nú eingöngu á Umræðunni, en umfangsmikil vefsvæði hafa verið sett upp í tilefni af stærri útgáfum Hagfræðideildar.
Á vefsvæðunum er notast við gagnvirk gröf, en myndbönd, ljósmyndir og viðtöl við hagsmunaaðila í atvinnulífinu styðja með áhugaverðum hætti við texta greininganna. Upptökur og glærur frá ráðstefnum sem haldnar eru í tilefni af útgáfum eru birtar á sérstökum vefsíðum sem helgaðar eru viðkomandi ráðstefnum. Áhersla er lögð á að efnið á vefnum sé sem ítarlegast og aðgengilegast fyrir alla.
Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans birtist einnig á Umræðunni en það eru reglulegir pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur og margt fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum o.s.frv.
Deildin gefur út þjóðhags- og verðbólguspár, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Einnig annast hún greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði. Iðulega er vitnað í sérfræðinga Hagfræðideildar og greiningar þeirra í fjölmiðlum og þeir fara reglulega í fjölmiðlaviðtöl, í samræmi við stefnu bankans um að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og samfélagsumræðu.
Alls sendi Hagfræðideild frá sér 338 greiningar árið 2018, auk þess að standa fyrir fjölda kynningarfunda og viðburða tengdum efnahagsmálum á árinu bæði innan bankans og utan. Stærstu verkefni deildarinnar eru jafnan árleg útgáfa á þjóðhags- og verðbólguspá til næstu þriggja ára. Í kjölfar kynningar Landsbankans á hagspá Hagfræðideildar í Hörpu í október var Þjóðhagur, ársrit deildarinnar, gefið út á Umræðunni. Yfirskrift fundarins í ár var: Úr hröðum vexti í hægari takt. Sérstaklega var fjallað um stöðu ferðaþjónustunnar og Danielle Haralambous, sérfræðingur hjá the Economist Intelligence Unit (EIU), fjallaði um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Fundinum lauk með pallborðsumræðu um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.
Útgáfur Hagfræðideildar | |
---|---|
Þjóðhagsgreiningar, skuldabréf og gjaldeyrismarkaður | |
Þjóðhagur og sérrit | 2 |
Hagsjá | 132 |
Vikubyrjun | 50 |
Yfirlit yfir gjaldeyrismarkað | 12 |
Mánaðaryfirlit sértryggðra skuldabréfa | 12 |
208 | |
Hlutabréf | |
Afkomuspár | 43 |
Viðbrögð við afkomu | 39 |
Verðmat fyrirtækja | 13 |
Mánaðaryfirlit hlutabréfa | 11 |
Sérrit | 3 |
Hluthafalisti | 20 |
Söluferli Arion banka | 1 |
130 | |