Ávarp bankastjóra

Landsbankinn leggur áherslu á að samfélagsábyrgð sé samþætt stefnumörkun bankans í heild. Samfélagsstefna bankans er mótuð til að tryggja að samfélagsábyrgð sé hluti af kjarnastarfseminni. Meðal viðskiptavina bankans, fjárfesta, starfsfólks og samstarfsaðila, sem og í samfélaginu öllu, er aukinn áhugi á samfélagsábyrgð. Horft er til stöndugra fyrirtækja um gott fordæmi og til að leiða þróunina.

Landsbankinn gefur árlega út samfélagsskýrslu í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan fylgir GRI viðmiðunum: Meginatriði og gegnir hún einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact. Landsbankinn mun áfram styðja við Global Compact og fylgja viðmiðum þess. Á síðasta ári hlaut bankinn viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins þegar Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu viðurkenninguna í fyrsta sinn. Það var ánægjuleg staðfesting á að Landsbankinn sé að standa sig vel í þessum efnum.

Heimsmarkið SÞ og viðmið um ábyrga bankastarfsemi

Á árinu 2018 voru teknar mikilvægar ákvarðanir um næstu skref í samfélagsábyrgð bankans. Ákveðið var að Landsbankinn myndi í sinni starfsemi fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti. Áhersla verður lögð á þrjú markmið: jafnrétti kynjanna (nr. 5), góða atvinnu og hagvöxt (nr. 8) og ábyrga neyslu og framleiðslu (nr. 12). Einnig var ákveðið að fylgja nýjum viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi, sem sett voru að frumkvæði Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og fjármálafyrirtækja víða um heim, og tengjast áætlun SÞ um að ná heimsmarkmiðunum. Viðmiðin eru sameiginlegur grundvöllur til samskipta og aðgerða og aðild bankans að þeim auðveldar honum að miðla upplýsingum um stefnu og árangur í samfélagsábyrgð. Ítarlega er fjallað um aðgerðir bankans í tengslum við heimsmarkmiðin í skýrslunni.

Skýr markmið í jafnréttismálum

Jafnréttismálin voru í brennidepli á árinu 2018 og bar þar hæst þátttaka alls starfsfólks bankans í Jafnréttisvísi Capacents. Landsbankinn vill vera í fremstu röð í jafnréttismálum og leggur þunga áherslu á að karlar og konur fái sömu laun fyrir jafn verðmæt störf og njóti sömu starfstækifæra. Með innleiðingu á Jafnréttisvísinum var markvisst horft til fleiri þátta en launajafnréttis. Staða jafnréttismála innan bankans var metin með ítarlegri greiningu og í kjölfarið voru mótuð skýr markmið í átt að auknu jafnrétti. Fjallað er um verkefnið í kaflanum um jafnréttismál. Á árinu fór einnig fram vinna við innleiðingu lögbundinnar jafnlaunavottunar og fór lokaúttekt Landsbankans fram í janúar 2019. Nú í mars bárust þau ánægjulegu tíðindi að Landsbankinn hefur hlotið jafnlaunavottun. Jafnlaunakerfi, þar sem stefnt er að engum launamun kynja fyrir sambærileg störf, er nú hluti af daglegri starfsemi bankans.


Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri
Starfsfólk Landsbankans hefur byggt upp mikla þekkingu á ábyrgum fjárfestingum sem miða að því að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Landsbankinn hefur verið í fararbroddi í þessum málaflokki hér á landi en bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013.

Allir sjóðstjórar bankans, sem starfa við fjárfestingarákvarðanir, hafa lokið námi á vegum UN PRI. Á árinu hefur einnig markvisst verið unnið að fræðslu um græn skuldabréf og áhugi á grænni fjármögnun eykst stöðugt. Kröfur um að horft sé til samfélags, sjálfbærni og umhverfislegra þátta aukast jafnt og þétt þegar kemur að lánveitingum og fjárfestingum, og allt bendir til þess að á næstu árum verði enn meiri áhersla lögð á þessi málefni. Í skýrslunni er fjallað um hvað Landsbankinn er að gera til að bregðast við auknum kröfum fjárfesta um samfélagsábyrgð.

Bankinn býr auk þess að því að sú vinna sem farið hefur fram varðandi samfélagsábyrgð hefur skilað sér í nýrri fjármögnun þar sem skilyrði eru sett um að nýting fjár sé til verkefna sem teljast samfélagslega ábyrg.

Landsbankinn þjónar fjölbreyttu samfélagi og atvinnulífi

Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum. Landsbankinn tekur virkan þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum og styður margvísleg samfélagsverkefni sem gerð eru góð skil í skýrslunni. Einnig er fjallað um víðtæka útgáfu sem bankinn stendur fyrir með það að markmiði að fræða og upplýsa fólk um fjármál og efnahag í víðum skilningi. Einnig er fjallað um breytingar í fjármálaumhverfinu, t.d. eðlisbreytingar í fjársvikatilraunum á netinu og áskoranir í mannauðsmálum vegna hraðrar þróunar í tækni og nýsköpun.

Mikilvægur hluti af samfélagslegri ábyrgð Landsbankans er að tryggja að rekstur bankans sé traustur og að bankinn skili ávinningi til viðskiptavina, samfélagsins og eigenda. Landsbankinn vill vinna með öðrum að samfélagsábyrgð og hefur það að leiðarljósi að sífellt sé hugað að umhverfissjónarmiðum, félagslegum og efnahagslegum þáttum í starfseminni.


Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum.