Um Landsbankann

Landsbankinn er stærsta fjármálafyrirtæki landsins. Landsbankinn hf. var stofnaður 7. október 2008 en saga forvera hans, Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.), nær allt aftur til ársins 1886.

Landsbankinn veitir einstaklingum, fyrirtækjum og fjárfestum trausta og alhliða fjármálaþjónustu sem byggir á langtíma viðskiptasambandi. Bankinn annast hefðbundna útlána- og innlánastarfsemi en sinnir einnig markaðsviðskiptum, sjóðastýringu í dótturfélaginu Landsbréfum, fyrirtækjaráðgjöf, einkabankaþjónustu og eignastýringu. Höfuðstöðvar Landsbankans eru við Austurstræti 11 í Reykjavík og nærliggjandi húsum en þær hafa verið á því svæði frá upphafi. Árið 2017 tók bankaráð Landsbankans ákvörðun um að byggja húsnæði fyrir starfsemi bankans að Austurbakka 2 við Austurhöfn í Reykjavík. Landsbankinn rekur enga starfsemi utan Íslands.

Í árslok 2018 átti ríkissjóður Íslands 98,2% eignarhlut í Landsbankanum. Landsbankinn átti sjálfur 1,60% hlut. Aðrir hluthafar, sem eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans og fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands (aðrir en íslenska ríkið), áttu 0,20%.

Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði mældist 37,8% á árinu 2018 í könnunum Gallup og hefur hún því aukist um 10 prósentustig frá árinu 2008. Um leið hefur ánægja með þjónustuna aukist og traust til bankans vaxið.

Markaðshlutdeild - Einstaklingsmarkaður

Hjá Landsbankanum og dótturfélögum hans störfuðu 944 manns í 919 stöðugildum í árslok 2018, þar af 60% konur og 40% karlar. Kynjahlutföllin eru óbreytt á milli ára.

Allir starfsmenn bankans í bankastörfum eru meðlimir Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og falla undir kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins (SA) og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF).

Um Landsbankann 31.12.2017  31.12.2018 Breyting  
Einstaklingar í viðskiptum við Landsbankann* 123.358 126.746 3%
Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann 13.503 13.670 1%
Útibú og afgreiðslur 37 37 0%
Stöðugildi 997 919 -8%

*Virkir viðskiptavinir

Helstu kennitölur (ma.kr.) 31.12.2016  31.12.2017 31.12.2018 
Hreinar rekstrartekjur 48.217 53.512 53.910
Hagnaður eftir skatta 16.643 19.766 19.260
Arðsemi eiginfjár eftir skatta 6,6% 8,2% 8,2%
Eiginfjárhlutfall  30,2% 26,7% 24,9%
Vaxtamunur eigna og skulda 2,3% 2,5% 2,7%
Kostnaðarhlutfall 48,4% 46,1% 45,5%
Heildareignir 1.111.157 1.192.870 1.326.041
Útlán sem hlutfall af innlánum viðskiptavina 144,7% 153,0% 153,6%
Kynjahlutfall starfsmanna
Fjöldi starfsmanna eftir ráðningarformi  Fastráðning Lausráðning Tímabundin ráðning Samtals
Karl 366 7 12 385
Kona 550 11 18 579
Samtals 916 18 30 964

Þátttaka

Landsbankinn tekur þátt í eftirfarandi samstarfi um samfélagsábyrgð.

Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð. Landsbankinn var einn af stofnaðilum Festu árið 2011.

United Nations Global Compact. Landsbankinn hefur verið þátttakandi í UN Global Compact á heimsvísu frá árinu 2006.

United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI). UN PRI eru samtök fjárfesta, sjóðafyrirtækja og greinenda sem hafa það að markmiði að innleiða umhverfis- og samfélagssjónarmið, auk góðra stjórnarhátta, í ákvarðanatöku við fjárfestingarákvarðanir.

United Nations Environment Programme Financial Initiative (UNEP-FI). Landsbankinn var einn af stofnaðilum UNEP-FI árið 1992. Landsbankinn ákvað í lok ársins 2018 að undirrita yfirlýsingu um að fylgja nýjum viðmiðum UNEP FI um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking) sem ætlað er að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið.

IcelandSIF, samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Landsbankinn var einn af stofnaðilum IcelandSIF árið 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.

Parísarsamkomulagið

Landsbankinn undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum ásamt rúmlega 100 íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Festu.

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og gerðar eru reglulegar úttektir á því hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í apríl 2018 um endurnýjun á viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2017-2018. Viðurkenningin byggir á úttekt Deloitte ehf. á stjórnarháttum bankans sem fram fór í janúar 2017. Viðurkenningin er fyrst og fremst veitt til þess að ýta undir umræður og aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti.


Stjórnarháttayfirlýsingin í heild