Ábyrgar fjárfestingar

Í Landsbankanum hefur undanfarin ár markvisst verið unnið að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum en tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir.

Áhersla á innleiðingu samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi

Landsbankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til viðmiða reglnanna í framvinduskýrslu og hefur bankinn skilað slíkri skýrslu til samtakanna undanfarin ár.

Landsbankinn telur að samþætting umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hafi jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.

Landsbankinn vill, með samræðum um samfélagsábyrgð við fyrirtæki, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæðri skimun (útilokun) er beitt í undantekningartilvikum.


Uppbygging þekkingar á málaflokknum ábyrgar fjárfestingar

Á árinu 2018 hefur markvisst verið unnið að því að efla og dýpka þekkingu sérfræðinga bankans á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Þannig hafa allir sjóðstjórar bankans, sem starfa við fjárfestingarákvarðanir, lokið námi á vegum UN PRI. Einnig hefur markvisst verið unnið í fræðslu varðandi nýjan eignaflokk, svokölluð græn skuldabréf. Bankinn hefur þannig byggt upp sérfræðiþekkingu innanhúss sem síðan hefur verið nýtt til að fræða helstu útgefendur um þessa áhugaverðu nálgun og spáir bankinn vexti í eignaflokknum á næstu misserum

Næstu skref

Bankinn hefur nýlokið yfirferð á stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar sem sett var árið 2013. Stefnan tekur nú bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast á undanförnum árum og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Þannig verður þáttum er varða umhverfismál, félagsleg mál og stjórnarhætti bætt við með skipulögðum hætti þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða.

Sigrún Guðnadóttir, sérfræðingur hjá Mörkuðum Landsbankans og Hrefna Ö. Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum.

  • Umfjöllun um græn skuldabréf birtist á Umræðunni í nóvember 2018.

Græn skuldabréf: Fjárfest í grænni framtíð

Ítarleg framvinduskýrsla

Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar tekur mið af reglum UN PRI og reglum um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu. Landsbankinn gefur nú út slíka skýrslu til PRI í fimmta sinn en hún er ætluð fjárfestum, viðskiptavinum og hagsmunaaðilum. Uppsetning skýrslunnar byggir á sex grunnstoðum PRI og er skýrslan opinber og aðgengileg á vefsvæði PRI.

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans hefur undanfarin misseri aflað upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista steig Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar Landsbankans árið 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.



  • Nánar er fjallað um ábyrgar fjárfestingar á Umræðunni.

„Ábyrgar fjárfestingar eru arðbærari“

Landsbankinn stofnaðili Samtaka um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Landsbankinn er einn af 23 stofnaðilum IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, er stjórnarformaður samtakanna sem voru stofnuð árið 2017.

Stofnaðilar samtakanna eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila, eru með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar og munu sem slík ekki taka afstöðu til álitamála er varða umrædd málefni. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum). Samtökin halda úti öflugri fræðsludagskrá og er ljóst að mikil eftirspurn er eftir þekkingu en fundir samtakanna hafa verið mjög vel sóttir.