Fjármálafyrirtæki

FS1 Stefnur sem fela í sér rýni umhverfis- og samfélagsþátta

Stefna í sambandi við almenn atvinnugreinaviðmið í lánveitingum frá Fyrirtækjasviði bankans var samþykkt af bankaráði árið 2017, svo voru almenn samfélagsviðmið við lánveitingar til fyrirtækja samþykkt í bankaráði árið 2018. Atvinnugreinastefnur Landsbankans innihalda viðmið um samfélagsáhrif þar sem meðal annars er verið að skoða loftslagsáhættu viðskiptavina. Atvinnugreinastefnurnar eru til fyrir eftirfarandi atvinnugreinar: sjávarútveg, fasteignafélög, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eignarhaldsfélög, ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, upplýsingatækni og fjarskipti. Landsbankinn styður viðleitni viðskiptavini sinni við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Stuðningur bankans er fyrst og fremst fólginn í lánveitingum til fjárfestinga.

Á árinu 2018 voru stigin mikilvæg skref í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hjá viðskiptavinum Landsbankans sem var eitt af þeim markmiðum sett voru fram í atvinnugreinastefnunum. Hér er einkum um að ræða aðgerðir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og í landbúnaði. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í fiskiskipaflotanum. Fjárfest er í nýjum skipum með nýrri tækni sem bætir orkunýtingu og minnkar eldsneytiseyðslu. Einnig er um að ræða nýtingu fiskiskipa á nýjum orkugjöfum svo sem lífdísil og ethanóli til íblöndunar við jarðefnaeldsneyti. Í landi hafa fiskimjölsverksmiðjur unnið að rafvæðingu þar sem olíu er skipt út fyrir rafmagn sem orkugjafa fyrir gufuframleiðslu. Í landbúnaði er hafið átak hjá bændum við endurnýjun votlendis með það að markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.


FS3 Ferlar til að fylgjast með innleiðingu viðskiptavina á og fylgni við umhverfis og samfélagsleg skilyrði í samningum eða viðskiptum

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans hefur undanfarin misseri aflað upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með spurningalistanum steig Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar í júní 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsingar fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.

Uppbygging þekkingar á málaflokknum ábyrgar fjárfestingar

Á árinu hefur markvisst verið unnið að því að efla og dýpka þekkingu sérfræðinga bankans á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Þannig hafa allir sjóðstjórar bankans sem starfa við fjárfestingaákvarðanir lokið námi á vegum PRI. Einnig hefur markvisst verið unnið í fræðslu um nýjan eignaflokk, græn skuldabréf. Bankinn hefur þannig byggt upp sérfræðiþekkingu innanhúss sem síðan hefur verið nýtt til að fræða helstu útgefendur um þessa áhugaverðu nálgun og spáir bankinn vexti í eignaflokknum á næstu misserum.

Næstu skref

Bankinn hefur nýlokið yfirferð á stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar sem sett var árið 2013. Stefnan tekur nú bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast á undanförnum árum og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Þannig verður þáttum er varða umhverfismál, félagsleg mál og stjórnarhætti bætt við með skipulögðum hætti þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða.

G4-FS8 Vara og þjónusta sem ætlað er að framkalla umhverfislegan ávinning

Í október 2018 var þriðji lánasamningur bankans við Norræna fjárfestingabankann (NIB) undirritaður vegna lánveitingar til Landsbankans að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala. Lánið er til sjö ára og er ætlað til fjármögnunar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og verkefnum tengdum umhverfismálum.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarlanda: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna.

Eftirlit

FS9 Umfang og tíðni endurskoðunar og áhættumatsferlar

Hjá Landsbankanum er í gildi skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu. Afrakstur þessa mats er áhættumiðuð kortlanging rekstraráhættu á samstæðugrunni. Þar sem áhættustig er hærra en gildandi áhættuvilji bankans er farið í leiðréttingaraðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir og þeim fylgt eftir. Mat á rekstraráhættu nær til allra áhættuþátta rekstraráhættu, þ.m.t. til þess að innri ferlar bregðist eða séu ófullnægjandi, mannlegra eða kerfislægra þátta eða utanaðkomandi atburða. Matsferlið er ekki sérhæft fyrir mat á framkvæmd umhverfis- eða samfélagsstefnu.

Innri endurskoðun er hluti af áhættustýringarramma bankans auk þess að vera hluti af eftirlitskerfi hans. Innri endurskoðun metur rekstrarskilvirkni bankans, fylgni við ytri og innri reglur og kynnir bankastjórn. Starfsemi Innri endurskoðunar nær til allra sviða, þ.m.t. rekstraráhættu og endurskoðunarferlisins. Alþjóðlega skoðunarstofan BSI fylgist með fylgni bankans við ISO 27001 staðalinn um upplýsingaöryggi. Þar að auki framkvæmir bankinn sjálfur reglulega ýmsar úttektir til að hafa eftirlit með fylgni við staðalinn. Ytri endurskoðendur bankans fylgja stöðluðu verklagi til öflunar endurskoðunargagna um samstæðureikningsskil bankans. Við það athugar endurskoðandinn innra eftirlit sem snertir tilreiðslu og sannferðuga framsetningu fyrirtækisins á reikningsskilunum.


Fjármál

FS11 Hlutfall eigna sem rýndar hafa verið vegna áhrifa á umhverfi eða samfélag

Áhersla á innleiðingu samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi

Í Landsbankanum hefur markviss verið unnið að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum síðan 2013, þegar bankinn setti sér fyrst slíka stefnu. Tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Bankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu og hefur bankinn skilað slíkri skýrslu til samtakanna undanfarin ár.

Landsbankinn telur að samþætting umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hafi jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.

Landsbankinn vill, með samræðum um samfélagsábyrgð við fyrirtæki, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæð skimun (útilokun) er undantekningartilvik.

Landsbankinn stofnaðili Samtaka um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi voru stofnuð 13. nóvember 2017 og var Landsbankinn einn af 23 stofnaðilum. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, er stjórnarformaður samtakanna.

Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Stofnaðilar samtakanna eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar og munu því sem slík ekki taka afstöðu til álitamála er varðar umrædd málefni. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum). Samtökin halda úti öflugri fræðsludagskrá og er ljóst að mikil eftirspurn er eftir þekkingu en fundir samtakanna hafa verið mjög vel sóttir.


G4-FS13 Aðgangur að bankaþjónustu

Almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Viðskiptavinir Landsbankans hafa því aðgang að almennri bankaþjónustu allan sólarhringinn í gegnum Landsbankaappið og netbanka Landsbankans. Þjónusta við reiðufé er víða aðgengileg allan sólarhringinn í gegnum hraðbanka og myntvélar. Rafrænum lausnum fjölgar stöðugt samhliða almennri tækniþróun.

Landsbankinn rekur víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi en í árslok 2018 rak bankinn 96 hraðbanka á 64 stöðum víða um land. Landsbankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum sem bæði er hægt að taka reiðufé út úr og leggja inn. Í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu eru gjaldeyrishraðbankar auk þess sem gjaldeyrishraðbankar eru í Reykjanesbæ og á Höfn í Hornafirði.

Mikið er lagt upp úr öryggi í netbönkum Landsbankans og gekk Landsbankinn á árinu 2017 í samtökin Nordic Financial CERT, samtök norrænna fjármálafyrirtækja sem er ætlað að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu.

Lausnir sem byggja á rafrænni auðkenningu viðskiptavina og rafrænu samþykki þeirra eru í hraðri þróun. Nú þegar fjölga slíkar lausnir sjálfsafgreiðslumöguleikum sem bætir aðgengi og gerir viðskiptavinum kleift að sinna bankaþjónustu hvenær sem þeim hentar. Sem dæmi um lausnir má nefna að viðskiptavinir geta nú með einföldum hætti sjálfir dreift greiðslum á kreditkortareikningum í netbanka. Markvisst er unnið að því að kenna viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslu og auka aðgengi að henni í útibúum bankans. Í útibúum Landsbankans geta viðskiptavinir fengið leiðsögn í notkun stafrænna lausna og reiðufjárþjónustu hraðbanka.

Landsbankinn leitar stöðugt nýrra tækifæra til að auka hagkvæmni í rekstri. Felur það m.a. í sér að breytingar verða á útibúum og afgreiðslum bankans, bæði varðandi staðsetningu og eðli starfseminnar á mismunandi stöðum. Leitast er við að breytingar á útibúaneti haldist í hendur við tækniframfarir og aukna möguleika viðskiptavina til sjálfsafgreiðslu. Þessum breytingum er til lengri tíma ætlað að auka þægindi viðskiptavina og spara þeim tíma, fé og fyrirhöfn við að sækja bankaþjónustu. Breytingarnar hafa bæði snert starfsemi bankans á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Í maí 2018 var opnunartíma breytt á 11 afgreiðslustöðum Landsbankans og tekur opnunartími nú mið af þjónustuþörf á hverjum stað. Þessi breyting er gerð í hagræðingarskyni en hefur lítil sem engin áhrif á viðskiptavini bankans eða þá þjónustu sem er í boði. Á árinu 2018 voru einnig gerðar breytingar á útibúum bankans í Reykjanesbæ og Vesturbæ. Það sem helst einkennir breytingarnar er að hraðbönkum, nettengdum tölvum og öðrum sjálfsafgreiðslulausnum var fjölgað verulega. Markmið breytinganna er að auðvelda viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir Landsbankans auk þess að gera viðskiptavinum kleift að fá kennslu við að nota lausnirnar.

Nánari upplýsingar um útibú bankans, afgreiðslur og þjónustuheimsóknir er að finna á vefsíðu bankans.

G4-FS14 Sértæk þjónusta við viðskiptavini

Til viðbótar við sjálfsafgreiðslulausnir og þjónustu útibúa og afgreiðslna bankans heldur Landsbankinn úti þjónustuheimsóknum á nokkrum stöðum. Þá hefur bankinn leitað nýrra leiða til að tryggja viðskiptavinum aðgengi að ákveðnum þáttum bankaþjónustu, t.d. með samningum um reiðufjárúttektir við verslanir. Í þessu samhengi er horft til sérstakra þarfa eða aðstöðu viðskiptavina, s.s. fjarlægðar frá næsta afgreiðslustað, samgangna og til sérstöðu ákveðinna hópa viðskiptavina, t.d. eldri borgara og þeirra sem ekki eiga hægt um vik með að sækja þjónustu á næsta afgreiðslustað bankans.

Þjónustuheimsóknir
Suðurland Dvalarheimili aldraðra á Selfossi og Kirkjuhvoll á Hvolsvelli, einu sinni í viku.
Vestfirðir Þingeyri, Tálknafjörður, Reykhólahreppur og Dvalarheimilið Hlíf á Ísafirði, einu sinni í viku, og Súðavík, aðra hverja viku.

Viðskiptavinir

G4-DMA (FS16) Aðgerðir til að bæta fjármálalæsi eftir markhópum

Viðskiptalausnir á Einstaklingssviði bankans sjá um fjármálafræðslu til einstaklinga og eflingu fjármálalæsis. Víðtæk umfjöllun og fræðsla um efnahag og fjármál í víðum skilningi fer fram á Umræðunni, frétta- og efnisveitu Landsbankans.

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í framhaldsskólum, bæði yngri nemendur sem eru að hefja nám, sem og þá sem senn ljúka námi. Fræðslunni er ætlað að efla fjármálaskilning nemenda og gera þá betur í stakk búna til að gera áætlanir til framtíðar. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.

Á árinu 2018 voru heimsóknir í framhaldsskóla 51 talsins í þá 17 skóla víða um land sem óskuðu eftir fræðslu og náði þannig til um 1100 nemenda. Ekki fer fram kynning á vörum eða þjónustu bankans heldur er um að ræða almenna fjármálafræðslu. Starfsmenn í Þjónustuveri bankans hafa sinnt fræðslu á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn útibúa á landsbyggðinni hafa séð um kynningar í sínu nágrenni. Lögð er áhersla á að yngri starfsmenn sinni fræðslunni svo að hún sé sem næst því að vera á jafningjagrunni.

Landsbankinn tekur einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin og starfsfólk þeirra um land allt. Ríflega hundrað starfsmenn fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða voru á ferðinni á síðasta ári, þar af 25 úr hópi starfsmanna Landsbankans. Alls fengu 3800 nemendur í 10. bekkjum grunnskóla að kynntast Fjármálaviti og vinna verkefni þess á liðnu ári en frá upphafi verkefnisins fyrir fjórum árum hefur Fjármálavit náð til 15.000 nemenda.

Auk fræðslu til nemenda í grunn- og framhaldsskólum hefur Landsbankinn staðið fyrir fræðslukvöldum fyrir háskólanema í samstarfi við Stúdentaráð.