Jafnrétti 

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á launajafnrétti og jöfn starfstækifæri og vill tryggja að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og vann á árinu 2018 að því að fá lögbundna jafnlaunavottun. Með þátttöku í Jafnréttisvísi Capacent á árinu 2018 var markvisst horft til fleiri þátta en launajafnréttis og kom allt starfsfólk bankans að því verkefni.

Jafnlaunavottun

Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Vinna við innleiðingu jafnlaunavottunar stóð yfir allt árið og naut bankinn leiðsagnar ráðgjafa frá Attentus í undirbúningnum. Lokaúttekt Landsbankans fór fram í janúar 2019 og framkvæmdi BSI á Íslandi, faggild skoðunarstofa, úttektina. Í lokaúttektinni var staðfest að öll skilyrði staðalsins væru uppfyllt og fékk bankinn endanlega staðfestingu í mars 2019.

Hluti af því vinnulagi sem bankinn mun temja sér með viðmiðum jafnlaunavottunar felst í útreikningi á launamun kynjanna innan bankans. Landsbankinn mun upplýsa starfsfólk um niðurstöðuna með reglubundnum hætti og árlega í ársskýrslu og samfélagsskýrslu bankans. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2018 leiðir í ljós 1,4% launamun kynjanna, karlar hærri en konur.


Jafnréttisvísir Capacent með þátttöku alls starfsfólks

Í september 2018 varð Landsbankinn aðili að Jafnréttisvísi Capacent. Samkomulag um að Landsbankinn tæki þátt í verkefninu var undirritað í febrúar og kom allt starfsfólk bankans að verkefninu á einhverju stigi. Jafnréttisvísirinn er viðamikið verkefni þar sem staða jafnréttismála innan bankans er metin með ítarlegri greiningu og skýr markmið mótuð í framhaldinu. Markmiðið er að stuðla að allsherjar vitundarvakningu um jafnréttismál.

Ráðgjafar lögðu mat á stöðu Landsbankans í jafnréttismálum og nýttu til þess fyrirliggjandi upplýsingar, samtöl við starfsfólk, kannanir meðal starfsfólks, úttekt á starfsaðstæðum og heimsóknum á starfsstöðvar. Leitast var við að ná heildrænni yfirsýn á jafnréttismál og eru lykilþættir sem horft er til menning, samskipti og vinnuumhverfi, stefna og skipulag, skipurit, laun og fyrirmyndir. Ekki síst er lögð áhersla á að fá upp á yfirborðið þá ómeðvituðu kynbundnu fordóma sem oft leynast í menningu, umhverfi og skipulagi fyrirtækja.

Niðurstöður greiningarvinnu voru kynntar á starfsdegi starfsmanna í apríl og í kjölfarið var unnið með niðurstöðurnar í vinnustofum þar sem allt starfsfólk tók þátt. Starfsfólk þróaði um 1.000 úrbótatillögur og í kjölfar úrvinnslu lágu fyrir um 250 ólíkar tillögur um hvernig bæta mætti jafnrétti innan Landsbankans.

Framkvæmdastjórn Landsbankans valdi úr tillögunum og mótaði verkefni og markmið til ársins 2022, sem sett eru fram í 6 flokkum:


Megináherslur í jafnréttismálum eru:

  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem karlar og konur eiga jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
  • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsfólks og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
  • Landsbankinn greiðir konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem starfsmenn geta samræmt vinnu og einkalíf.
  • Landsbankinn líður ekki einelti, fordóma, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni né kynbundið ofbeldi.
  • Landsbankinn gætir þess að starfsfólk hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.
  • Starfsþróunar- og mentorakerfi, að koma á fót úrræðum fyrir starfsfólk til að styrkja eigin starfsþróun.
  • Fyrirmyndir, kynjaskipting þeirra sem koma fram fyrir hönd bankans.
  • Menning og umhverfi, að ferlar varðandi EKKO (sjá umfjöllun neðar) verði skýrir og trúverðugir og starfsfólk fái reglulega fræðslu um EKKO.
  • Fræðsla og umhverfi, viðburðir um jafnréttismál og fræðsluátak meðal starfsfólks.
  • Ráðningarferli, að vinna að því að útrýma ómeðvituðum fordómum úr ferlinu.
  • Jöfn staða kynja, að ná 40/60 kynjahlutfalli í öllum stjórnunarlögum.

Kynjahlutfall í Landsbankanum - heild

Uppfærð jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna Landsbankans og aðgerðaáætlun stefnunnar var tekin til skoðunar og endurmats á árinu. Engar stórar breytingar voru gerðar á megináherslum stefnunnar en meira er gert úr markvissum aðgerðum sem geta jafnað stöðu karla og kvenna. Viðbragðsáætlun vegna áreitni og eineltis hefur verið uppfærð og kynnt á fundum með öllum stjórnendum bankans. Í upphafi árs 2019 verða fundir með öllu starfsfólki þar sem stefnan og viðbragðsáætlun verða kynnt.


Fræðsla um viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi (EKKO)

Haustið 2018 voru haldnar vinnustofur fyrir stjórnendur bankans um viðbrögð við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Í framhaldinu fá allir starfsmenn bankans fræðslu um málefnið á vormánuðum 2019.

Markmiðið með fræðsluerindunum er að kynna stefnu, forvarnir og verkferla sem unnið verður eftir innan bankans í framtíðinni. Við innleiðingu á nýjum verkferlum er mikilvægt að tryggja sameiginlegan skilning starfsfólks á hugtökum og aðferðafræði. Til þess að auka virði og gagnsemi stefnu, skiptir fræðsla höfuðmáli.

Í EKKO fræðslunni verður farið yfir eftirfarandi þætti:

  • Tilgang stefnu og skilgreiningar (hugtakavinna).
  • Algengar orsakir, birtingarmyndir og þróun (hvað flokkast sem einelti eða áreitni).
  • Afleiðingar eineltis, ofbeldis eða áreitni.
  • Rétt viðbrögð (hvernig er best að mæta einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað).
  • Forvarnarvinna starfsfólks (hvernig er best að koma í veg fyrir óeðlileg samskipti)