Ræstingar
Dögun sér um ræstingar á tæplega 30 þúsund fermetrum í húsnæði bankans. Árið 2018 notaði Dögun 156 lítra af ræstiefnum í bankanum og var það allt umhverfisvottað, ýmist með norræna umhverfismerkinu Svaninum eða Evrópublóminu, umhverfismerki ESB. Dögun hefur fengið umhverfisvottun Svansins.
Aukalega voru keypt 338 kg af hreinlætispappír sem var allur umhverfisvottaður og 1045 lítrar af ræstiefni til innanhúsnota en 91% af því var umhverfismerkt.
Bankinn heldur áfram vinnu sinni að settu markmiði um að verða pappírslaus banki.
Heildar pappírsnotkun á árinu var 9,25 tonn, auk umslaga, sem voru 968 kg. Allur pappír var umhverfisvottaður með Svaninum eða Evrópublóminu og 99,2% af umslögum. Í lok árs voru 172 prenttæki í bankanum sem er fækkun um sex frá árinu 2017. Öll prenttæki eru vottuð með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum.
Pappírsnotkun vegna útgefins efnis var 11,1 tonn, 8,7 tonn voru prentuð á umhverfisvottaðan pappír, eða 78% af útgefnu efni. Prentað efni samsvarar 88 grömmum á hvern viðskiptavin.
Útgefið efni Landsbankans var allt prentað hjá prentsmiðjum sem eru vottaðar af norræna umhverfismerkinu Svaninum.
Rafmagnsnotkun
Landsbankinn þekkir til fulls rafmagnsnotkun á 42.704 fermetrum, eða um 98% af heildarfermetrafjölda húsnæðis hans. Raforkunotkunin var 4.978 MWh á þessum fermetrum. Bankinn hefur ekki fullnægjandi upplýsingar um rafmagnsnotkun í leiguhúsnæði þar sem rafmagn er hluti af leiguverði eða öðrum rekstrarkostnaði. Heildarnotkun er áætluð 5.073 MWh, sem samsvarar um 115 kWh/m², sem er sambærilegt við árið á undan.
Vitneskja um heitavatnsnotkun er sömu takmörkunum háð og vitneskja um rafmagnsnotkun þar sem verð hennar er stundum innifalið í leiguverði eða öðrum kostnaði. Hitaveitur gefa upp notkun í rúmmetrum vatns en ekki orkuinnihaldi. Af þessum sökum er allur samanburður mjög erfiður þar sem hitastig á heitu vatni getur verið mismunandi á milli veitusvæða. Þar eru undanskildar hitaveitur á köldum svæðum landsins en þar sem vatn frá þeim er hitað með rafmagni eru þær tölur gefnar sem orkuinnihald. Þetta eykur enn meira á erfiðleika við samanburð á milli veitusvæða.
Landsbankinn hefur upplýsingar um heitavatnsnotkun á 32.250 m², eða um 76% af heildarfermetrafjölda húsnæðis hans. Mæld vatnsnotkun var tæplega 144 þúsund m³, sem gerir áætlaða meðaltalsnotkun um 4,5 m³, á hvern fermetra húsnæðis.
Bifreiðar í notkun hjá Landsbankanum við árslok 2018 voru 23 talsins og er heildarakstur þeirra áætlaður 301.622 km á árinu, eða að meðaltali 13.114 km á hvern bíl.
Eknir kílómetrar með leigubílum árið 2018 voru 11.432, sem er 29%minnkun frá árinu áður, þegar 16.164 km voru eknir með leigubílum. Eknar voru 1.591 ferðir á árinu í samanburði við 2.403 árið 2017.
Eldsneytisnotkun mæld í kWh hefur minnkað úr 287.684 í 247.490 sem gerir 14% minnkun frá árinu 2017. Eldsneytisnotkun vegna aksturs starfsmanna var eftirfarandi:
Eldsneytisnotkun | 2017 | 2018 | ||||
---|---|---|---|---|---|---|
Eldsneyti | Notkun (dm3) | Orkuinnihald (kWh/dm3) | Orkunotkun (kWh) | Notkun (dm3) | Orkuinnihald (kWh/dm3) | Orkunotkun (kWh) |
Bensín | 6.434 | 9 | 57.776 | 3.694 | 9 | 33.172 |
Gasolía | 15.087 | 10 | 149.658 | 14.094 | 10 | 139.812 |
Metan | 7.891 | 10 | 80.250 | 7.326 | 10 | 74.505 |
Samtals | 287.684 | 247.490 |
Áframhaldandi minnkun eldsneytisnotkunar á milli ára hefur náðst með því að auka fjölda rafmagnsbíla á kostnað bíla sem brenna eldsneyti auk þess að hvetja til notkunar á hjólum og almenningssamgöngum í stað bíla.
Bein losun gróðurhúsalofttegunda stafar af eldsneytisnotkun.
Losun gróðurhúsalofttegunda við akstur var 45,6 tonn á árinu 2018, sem er 16% minnkun frá fyrra ári. Landsbankinn kolefnisjafnar losun gróðurhúsalofttegunda ársins 2018 hjá Kolviði. Kostnaður við kolefnisjöfnun er 91.296 krónur og samsvarar gróðursetningu á 428 trjám.
Bein losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum | 2017 koltvísýringur | 2018 koltvísýringur |
---|---|---|
Bensín | 14,7 | 8,4 |
Gasolía | 39,8 | 37,2 |
Metan | 0,0 | 0,0 |
Samtals | 54,5 | 45,6 |
Með óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda er átt við losun sem stafar af orkuframleiðslu orkufyrirtækja. Öll orka sem Landsbankinn notar kemur annaðhvort frá fjarvarmaveitum (jarðvarmi) eða vatnsaflsvirkjunum. Í báðum tilfellum er um að ræða endurnýjanlega orkugjafa sem valda engri eða mjög lítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Óbein losun gróðurhúsalofttegunda vegna hita og rafmagns er því lítil sem engin.
Með orkunotkun utan bankans er átt við orkunotkun sem er hægt að rekja beint til starfsemi bankans en á sér stað hjá öðrum fyrirtækjum. Hér er átt við þjónustu sem er keypt af öðrum fyrirtækjum, t.d. flug og aðrar samgöngur.
Flugleggir vegna vinnutengdra flugferða starfsmanna erlendis árið 2018 voru 263 samanborið við 294 árið 2017. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða erlendis var 142,4 tonn, sem er aukning frá árinu á undan, þrátt fyrir að færri leggir hafi verið flognir. Aukningin stafar af því að ferðast var um fleiri langa flugleggi árið 2018 heldur en árið á undan. Meðallosun á fluglegg árið 2018 var 541 kg.
Landsbankinn kolefnisjafnar losun gróðurhúsalofttegunda hjá Kolviði. Kostnaður við kolefnisjöfnun þessara flugferða er 284.902 krónur sem samsvarar gróðursetningu á 1338 trjám.
Flugleggir vegna vinnutengdra flugferða starfsmanna innanlands árið 2018 voru 479, sem er fækkun frá árinu 2017, þegar þeir voru 641. Losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við þessar ferðir var 42,1 tonn sem er töluverð aukning frá 17 tonnum árið 2017. Ástæða þess að losun gróðurhúsalofttegunda hækkar þrátt fyrir að flugleggjum hafi fækkað á milli ára er gerð flugvéla sem flogið er með, en árið 2018 var oftar flogið með flugvélum sem losa meiri koltvísýring heldur en árið á undan.
Ferðirnar eru kolefnisjafnaðar og er kostnaðurinn við það 84.217 krónur, sem samsvarar gróðursetningu á 395 trjám.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2018 var 230 tonn sem er um 250 kíló á hvert stöðugildi bankans. Það samsvarar um 108 lítrum á hvert stöðugildi.
Landsbankinn kolefnisjafnar þessa losun og er kostnaðurinn við það 460.415 krónur sem samsvarar gróðursetningu á 2161 trjám.
Heildarmagn úrgangs var 202,4 tonn árið 2018 sem er aukning um 1% frá fyrra ári. 68% af úrgangi bankans er flokkaður en unnið er að því að auka hlutfall flokkaðs úrgangs.
Meðhöndlun úrgangs (tölur í kg.) | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 |
---|---|---|---|---|---|---|
Blandaður úrgangur | 96.602 | 96.940 | 94.118 | 84.943 | 93.353 | 63.837 |
Flokkað | 120.062 | 108.130 | 139.214 | 116.308 | 107.021 | 138.529 |
Lífrænt | 21.910 | 25.713 | 21.669 | 22.567 | 32.024 | 34.318 |
Flokkaður úrgangur | 19.460 | 45.065 | 47.610 | 56.178 | 28.839 | 35.372 |
Byggingarefni | 44.676 | 13.740 | 3.120 | 3.750 | 11.940 | 4.880 |
Gagnaeyðing pappír | 30.326 | 22.350 | 60.057 | 32.272 | 25.285 | 62.695 |
Gagnaeyðing búnaður | 2.999 | 534 | 6.235 | 1.237 | 8.277 | 1.265 |
Spilliefni | 691 | 728 | 522 | 304 | 657 | 0 |
Samtals | 216.664 | 205.070 | 233.332 | 201.251 | 200.375 | 202.366 |